Færsluflokkur: Bloggar

Vængjalausi engill!

Vængjalausi engill

Vængjalausi engill
sestu við hlið mér
Umvefðu hjarta mitt
með sakleysi þínu og einlægni

Komdu hérna barnið mitt blíða
vertu hérna hjá mér
Þú ein getur rekið í burtu
djöflana í lífi mínu
með ást þinni og kærleika

Þú ert það sem ég lifi fyrir
sú sem gefur mér kraft og orku
sú sem rekur burtu myrkrið
svo ég sjái ljósið bjarta
svo ég geti lifað

Vængjalausi engill
ég sakna þín
sestu við hlið mér
ástin mín


Ljóð ..

Sársaukinn umlykur mannkynið
og stjörnurnar slökna ein og ein
Engin von, engin framtíð...
bara endalaus sálarmein

Djöflarnir dansa í kringum mig
en ér er sterkari en þeir
Ég óttast ekki
þegar ástin deyr

Myrkrið umlykur hjarta mitt
og skyggir á þig
Dauðinn kallar og kallar
hann kallar á mig

Tár mín væta jörðina
og fylla djúpar sprungur
Sársaukinn hann kæfir mig
dómur minn er þungur

Dauðinn og myrkrið kalla á mig
og ég veit ég verð að svara
Ég kveð ykkur ástvinir mínir
það er kominn tími til að fara


Ljóð!



Hvað get ég gert við þennan sársauka?
Ég hleyp og hleyp en hann er alltaf við hlið mér
Hvað get ég gert? Hvað get ég sagt?
Er lífið þess virði að lifa?

Fossblæðandi sár...
sál mín er þakin þeim...
Hvernig get ég höndlað það?
Þegar sársaukinn sker mig að innan?

Verð að beina honum annað...
en það er bannað...

Hleyp og hleyp...
Alltaf hann fylgir mér
veit ekki hvert ég fer

Viltu hjálpa mér?
Getur þú hjálpað mér?
Að taka sársaukann
pakka honum inn
og henda honum út í hafsauga

En við reyndum...
þú reyndir...
Hann kemur alltaf aftur
og hleypur við hlið mér
sker mig að innan...
þangað til ég dey!


Myrkrahliðið!

Myrkrahliðið

Komdu með mér að myrkrahliðinu
þar sem djöflarnir syngja og dansa
þeir safna hinu ljóta og dimma
þeir safna hinu vonda, myrka og grimma

Komdu með minningar  þínar
og ég kem með hugsanir mínar
gefum djöflunum veislu
og hendum þessu öllu inn fyrir hliðið

Eldarnir glæðast og djöflarnir gleðjast
þegar þeir fá hinar vondu minningar
hinar myrku hugsanir
sem koma úr innstu kytrum mannshugans

Komdu vinur að myrkrahliðinu
skiljum eftir allt illt
allt dimmt og allt ljótt
svo læðumst við í burtu hægt og hljótt
meðan djöflarnir halda veislu

 



Hafið !

Hafið

Ég stend á bryggjunni
horfi út á sjóinn
Lágt hvíslið í öldunum
laðar og seiðir
Loftið fullt af loforðum

Hafið segir: „Komdu til mín“
„Leyfðu mér að hugga þig,
 faðma þig og vernda“
„Ég skal taka burt
 allan þinn sársauka
 og öll þín mein...“
„Að eilífu“

Ég er uppgefin
og tár mín falla
Ég hef tekið ákvörðun

Andvarinn strýkur kinn mína
svo létt og huggandi
um leið og ég tek skrefið
og leyfi hafinu að taka
burt öll mín mein...
Að eilífu


Eitt ljóð enn!

Ákvað að setja hér inn ljóð sem ég fékk í afmælisgjöf þegar ég varð 35 ára frá einni dóttur minni sem þá var á unglingsaldri.Kissing

Af hverju? 

 Af hverju trúir þú öllu

sem þessi litli munnur segir?

Af hverju leyfir þú allt

sem þessar litlu hendur gera?

Af hverju skilur þú allt

sem litla höfuðið hugsar?

Af hverju leyfir þú mér að gráta

þegar ég þarf á því að halda? 

En, elsku mamma

nú skil ég allt.

Þú varst einu sinni

með stóra drauma

í lítilli sál.

Alveg eins og ég. 

Höf. Gósk. 


Tvö ljóð!

Set hér inn 2 ljóð eftir hana dóttur mína!

Vinur

Hljóðlaust tár rennur niður kinn mína,
sál mín hljóðar af sársauka,
ég græt innra með mér,
finn svo mikið til.

Ég er hrædd, svo hrædd,
veit ekki hvar ég er...

Því get ég ekki fundið sjálfa mig?
Því get ég ekki fundið leiðina heim ...?

En ég gleymdi því ...
ég hef aldrei komið þangað
og veit ekki hvar það er,
ég á víst hvergi heima.

Ég er bara vinur á leið um ...
kem bara við, stoppa stutt.
Veit ekki hvaðan ég kem
eða hvert ég fer ...
hvort ég komi nokkurn tímann aftur.

Kæri vinur, ef þú hittir mig,
ekki reyna að tengjast mér,
ekki reyna að skilja.
Og vertu ekki sorgmæddur
þegar ég fer.
Það er bara sóun á orku,
sóun á tilfinningum.
Ég er aðeins vinur á leið um ...

Höfundur: Alexía Nótt    

   

Þeir sem hvísla

Ligg hérna andvaka og þykist sofa ...
reyni að losna við þá sem hvísla ...

Þeir hvísla um hið liðna
og það sem er ókomið enn.
Þeir hvísla um mig og fólkið mitt
og líka hina sem ég þekki ekki neitt.

Stundum hvísla þeir notalega,
og hlýleg orð hljóma í höfði mínu.
Stundum eru þeir grimmir
og hvísla að mér hræðilegum orðum.

Hræðilegum orðum sem bergmála í höfðinu á mér
orðum sem einhvern veginn virðast 1000 sinnum sterkari
heldur en allt annað sem ég skynja.

Ég get ekki svarað,
má ekki hvísla á móti,
því þá hætta þeir að hvísla
og byrja að tala fullir ákefðar.

Ef ég bara þykist sofa ...
þykist ekkert heyra ...
þá kannski, bara kannski,
hverfa þeir á braut.

Ég þrái að fá að vera í friði,
þrái að fá að sofa.
Er svo þreytt, svo þreytt ...

"Reyndu nú að sofa aðeins"
heyrist hvíslað,
og mér líður vel,
á þessari stundu
eru þeir hlýlegir.

Höfundur: Alexía Nótt  


Ráð fyrir konur!!!

 
  Easter Bonnet Mom And Kids Brushing 
 
 
 
 
 
Það er sagt að maður eigi að borða eitt epli daglega útaf 
járninu og einn banana til að fá kalíum.
 
Líka eina appelsínu, útaf c-vítamíninu og einn bolla af 
grænu te án sykurs, til að forðast sykursýki. Svo má ekki 
gleyma lýsinu sem er náttúrulega allra meina bót.
 
Drekka tvo lítra af vatni alla daga (Já, og síðan að pissa 
því, sem tekur tvöfaldan tímann sem það tók að drekka það)
 
Á hverjum degi borða jógúrt og eitt skot af LGG út af gerlunum sem enginn
skilur hvað gera, en ef þú færð ekki eina og hálfa milljón á dag
mun það hafa skelfilegar heilsufarslegar afleiðingar.
 
Daglega taka inn eina aspirín til að koma í veg fyrir hjartaáfall, og
drekka eitt rauðvínsglas í sama tilgangi.
Og annað hvítt fyrir taugakerfið.
Og einn bjór, sem ég man ekki hvaða gagn á að gera.
Ef þú færð þér þetta allt í einu, skaltu gæta þess að eiga einn Red
Bull í ísskápnum til að drekka daginn eftir, nema náttúrulega ef þú ert þá
búinn að fá heilablóðfall. Ef það gerist, muntu ekki taka eftir því.
 
Daglega borða trefjar. Mikið, mjög mikið af trefjum. Þar til þú kúkar
heilli peysu. Það á að borða fjórar til sex máltíðir á dag, hollar,
fitulitlar máltíðir og ekki gleyma að tyggja hvern munnbita hundrað
sinnum.
 
Með smá útreikningi er ljóst að það tekur þig um fimm klukkustundir á
dag að borða.
 
Ó, og síðan má ekki gleyma að bursta tennurnar eftir hverja máltíð.
 
Á eftir jógúrtinu og trefjunum, tannbursta ; á eftir eplinu, tannbursta; á
eftir banananum, tannbursta ...
Og á meðan þú ert á annað borð með tennur máttu ekki gleyma
tannþræðinum og munnskolinu með tilheyrandi gurgli.
 
Best að stækka baðherbergið og setja þar inn hljómflutningstækin þín,
því þar áttu eftir að dvelja drjúgan tíma: vatnsþambið, trefjarnar,
tennurnar...
 
Síðan á að sofa í átta stundir og vinna aðrar átta plús þessar fimm
sem fara í að borða. Þetta gerir tuttugu og eina klukkustund. Þá áttu
þrjár stundir eftir, það er að segja ef ekkert sérstakt kemur uppá þann daginn.
 
Samkvæmt könnunum eyðum við þremur stundum daglega í sjónvarp...og ekki
gleyma tölvunum!!! En þú hefur engan tíma í slíkt, því daglega áttu
fá þér a.m.k. hálftíma göngutúr (Ég tala af reynslu: Snúðu við eftir
15 mínútur, því annars verður hálftíminn að klukkustund).
 
Síðan verður að huga að vinunum því þeir eru eins og blóm: það þarf
vökva þá daglega. Líka þegar þú ferð í frí. Það er að segja ef
þú ferð í frí.
 
Síðan þarf að vera vel upplýstur. Lesa að minnsta kosti tvö dagblöð og
eina grein í tímariti til að bera upplýsingarnar saman.
 
Ah! Síðan er það kynlífið. Kynlíf daglega og þar að auki á það að
vera frumlegt og skapandi . Þetta tekur sinn tíma!!! Að maður tali nú ekki um
tantra kynlíf!!!  
Að öllu framansögðu vil ég minna þig á: Það á að tannbursta sig eftir hverja máltíð. Það þarf líka að skúra, þurrka
af, þvo þvott, fara í sturtu og vaska upp og áttu kannski hund að auki eða hamstur? Börn?!
 
Nú reiknast mér til að þetta kalli á um 30 stundir á dag. Eina lausnin á
þessum vanda, er að framkvæma eitthvað af þessum atriðum í einu. Til
dæmis: Þú ferð í kalda sturtu með opinn munninn og drekkur þannig
lítrana tvo af vatni. Þegar þú gengur út úr baðherberginu með
tannburstann í munninum nýturðu um leið ásta (tantrískt) standandi með
makanum þínum, sem um leið horfir á sjónvarpið og segir þér frá á
meðan þú burstar tennurnar. Var ein hendi laus?
 
 Hringdu í vinina!!! Og foreldrana!!!
 
Fáðu þér rauðvín (eftir spjallið við foreldrana muntu þurfa á því
að halda) eplið getur makinn þinn matað þig á á meðan þú borðar bananann með
jógúrtinu. Úffffff! En ef þú átt tvær mínútur eftir , sendu þetta
þá á vinina (sem þú þarft að vökva eins og blóm) um leið og þú tekur inn
eitt hvítlaukshylki sem er svo gott fyrir...
En nú verð ég að hætta því eftir jógúrtið, appelsínuna, bananann,
bjórinn, fyrri vatnslítrann, þriðju máltíðina með trefjum, hef ég ekki hugmynd
um það hvað ég er að gera og þarf nauðsynlega að komast á klósettið. 
Aha, ég ætla að nýta tímann og kippa tannburstanum með mér.
 
Ef ég er senda þér þetta í annað sinn , er það vegna þess að þrátt
fyrir að fylgja öllum þessum ráðum er ég samt komin með alzheimer.
 
 
Kveðja, þín vinkona...
 
 
Fékk þetta sent frá einni systur minni.  Mátti til að birta þetta hér!
 
 






Það sem ég hef haft á milli handanna undanfarið!

Móðir og Barn  Vesti úr léttlopaFyrst ber að telja Móður og Barn, það gengur bara ágætlega með hana, þó ekki alveg búin!

 

 

Svo er konan með eitthvað á prjónunum sem setja á með öðru í jólapakkana.

Jóladót Eitthvað er konan að " Bucillast" líka....

og auðvitað er líka verið að sauma eitthvað svona jóla.. jóla....

Lítill jóladúkur


Leyni- SAL

Það var verið að gera Leyni-SAL í saumaklúbbnum hjá okkur um daginn.   Svo áttum við að senda inn myndir  og kjósa svo um hvaða útfærsla væri flottust.  Hrönn systir vann með þessa glæsilegu útfærslu hér fyrir ofan.  Mín mynd birtist svo hér fyrir neðan til samanburðar , þannig að þið sjáið hvað getur breytt miklu um lokaútlit hvaða litur af garni er notað og í hvernig java er saumað...............

 Mynd nr.14  Verð nú að viðurkenna að mér fannst ekki eins gaman að gera þetta stykki og hin Leyni-SAL stykkin sem ég er búin með, þegar maður er að gera einn lit í einu..........


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband